Sport

Tryggvi skrifar undir hjá FH

FH-ingar hafa boðað til blaðamannafundar á morgun þar sem tilkynnt verður að Tryggvi Guðmundsson skrifar undir þriggja ára samning við félagið. Þetta staðfesti Pétur Stephensen, framkvæmdastjóri FH, við íþróttadeildina en gengið verður frá samningnum í dag. Þá verður væntanlega gengið frá því í vikunni að Tryggvi verði lánaður frá FH til Stoke City fram á vor, eða þangað til 1. deildarkeppninni á Englandi lýkur, en að sögn Gunnars Þórs Gíslasonar, stjórnarformanns Stoke, eru samningar í burðarliðnum. Gunnar Þór segir að ef Tryggvi stendur sig vel hjá Stoke komi til greina að bjóða honum lengri samning og þá myndi hann ekki spila með FH í sumar. Pétur kannast ekki við það og segir að Tryggvi sé fyrst og fremst að gera samning við FH. Samkvæmt félagaskiptareglum má leikmaður aðeins skipta um félag einu sinni á ári, nema að um lánssamninga sé að ræða, en þeir eru einnig háðir ýmsum skilyrðum. Að sögn Geirs Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra KSÍ, eru lánssamningar á milli landa í dag að lágmarki til sex mánaða og því gæti Tryggvi, strangt til tekið ekki spilað með FH fyrr en í lok júlí eftir lánssamning hjá Stoke. Enska knattspyrnusambandið hefur lögsögu í málinu en að sögn Geirs myndu félagaskipti Tryggva í FH væntanlega ganga strax í gegn eftir að tímabili lýkur því enska knattspyrnusambandið hefur yfirleitt sýnt tillitsemi í svona málum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×