Innlent

Fyrsta nýja kaupskipið í áratug

Fyrsta kaupskipið sem er smíðað fyrir Íslendinga í áratug siglir ekki undir íslenskum fána heldur færeyskum af skattaástæðum. Samgönguráðherra segir sig og fjármálaráðherra vera að skoða hvort unnt sé að breyta skattafyrirkomlaginu. Skipið var afhent í Hamborg um helgina. Það var Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Ólafs Ólafssonar, stjórnarformanns Samskipa, sem gaf skipinu nafnið Arnarfell við höfnina í Hamborg að viðstöddu fjölmenni: fulltrúum eigenda Samskipa, fulltrúa Seatas-skipasmíðastöðvarinnar og Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra. Skipið kostar 1,7 milljarða króna og getur borið nærri þúsund gáma. Það er fyrsta kaupskipið sem smíðað er fyrir Íslendinga í nærri áratug, en undanfarinn aldarfjórðung hafa aðeins þrjú önnur verið smíðuð fyrir Íslendinga. Burðargeta Arnarfellsins er rúmlega 11 þúsund tonn en það er 138 metra langt og 21 metri á breidd og er ganghraðinn liðlega 18 sjómílur. Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Samskipa, sagði daginn ánægjulegan og hann væri mjög glaður að taka á móti Arnarfellinu. Hann segir þetta fyrikomulag hafa verið hagstæðasta kostinn fyrir Samskip en skipið er hannað eftir óskum félagsins og sérhannað fyrir þær aðstæður sem geta orðið á Norður-Atlantshafi. Á því sé sérstakur bakki sem sé til þess að verja gáma og frakt fyrir brotsjó og eins sé byggt yfir spil og vindur til þess að verja skipið sem best fyrir sjónum við strendur Íslands. En þrátt fyrir að þetta sé fyrsta kaupskipið sem smíðað er fyrir Íslendinga í um áratug siglir það ekki undir íslenskum fána eins og ýmsir hefðu haldið heldur færeyskum. Þetta er vegna skattamála, en Færeyingar bjóða fyrirtækjum í skiparekstri upp á skattaafslátt sem Íslendingar gera ekki. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra segir að innan ríkisstjórnarinnar sé verið að skoða hvort hægt sé að breyta þessu. Á borði hjá honum og fjármálaráðherra séu tillögur sem þeir séu að láta vinna úr og vonandi komist þeir fljótlega að niðurstöðu. En það er skammt stórra högga á milli í nýsmíði íslenskra kaupskipa því í næsta mánuði verður annað skip afhent Samskipum og er það einnig smíðað í Seatas-skipasmíðastöðinni í Hamborg. Það nefnist Helgafell og er systuskip Arnarfellsins. Vinna við Helgafellið stendur nú sem hæst og þótt ótrúlegt megi virðast verður það tilbúið til afhendingar í febrúarlok.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×