Innlent

Óbeinar reykingar mjög skaðlegar

Óbeinar reykingar eru mjög skaðlegar og valda miklu heilsutjóni á vinnustöðum, samkvæmt erindi sem sænskur lungnasérfræðingur flutti á Læknadögum sem haldnir voru í Reykjavík. Það er óviðunandi að vinnuvernd nái ekki yfir starfsfólk veitingastaða, segir formaður Tóbakasvarnaráðs. Á Læknadögum var fjallað um skaðsemi óbeinna reykinga, meðal annars vegna fyrirhugaðrar lagasetningar hér á landi, þar sem banna á reykingar á veitingastöðum og skemmtistöðum, en litið er á lögin sem eitt brýnasta vinnuverndarmál hérlendis. Dr. Göran Boethius lungnasérfræðingur sagði í erindi sínu sannanir liggja fyrir um að óbeinar reykingar væru skaðlegar og benti á að lungnakrabbamein væri algengara hjá starfsfólki veitinga- og skemmtistaða en hjá öðrum starfsstéttum. Hann sagði enn fremur að um sömu áhrif væri að ræða og kæmu fram hjá virku reykingafólki og það skipti máli hve lengi fólk væri í reykumhverfi og hve megn reykurinn væri. Hann sagði einnig að það hefði komið skýrt fram í rannsóknum að óbeinar reykingar hefðu áhrif og auk þess hefði komið í ljós að barnshafandi konur sem ynnu í slíku umhverfi kæmu tvöfalt verr út, bæði hvað þær sjálfar varðaði og börnin. Það væri alveg ljóst að óbeinar reykingar hefðu áhrif á þungunina þannig að fæðingarþyngd yrði minni og meðganga styttri. Pétur Heimisson, formaður Tóbaksvarnaráðs, bendir á að í mörg ár hafi verið í gildi lög sem segi að á öllum vinnustöðum eigi að vera reyklaust umhverfi nema á veitinga- og skemmtistöðum. Með öðrum orðum sé ákveðið að vinnuvernd eigi að vera til handa öllu vinnandi fólki í landinu nema þessum ákveðnu stéttum og það sé ekki ásættanlegt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×