Innlent

Segir ekki gripið til uppsagna

Formaður stjórnarnefndar Landspítalans segir að þótt stefnt sé að því að draga úr rekstrarkostnaði spítalans um rúmlega 500 milljónir króna verði öllum ráðum beitt til að tryggja áfram eðlilega þjónustu. Hann segir ekki koma til greina að grípa til frekari uppsagna. Samkvæmt rekstraráætlun Landspítalans fyrir árið 2005 verður enn dregið úr þjónustu spítalans en lækka þarf rekstrarkostnað hans um tvö prósent miðað við afkomuna í fyrra. Pálmir Ragnar Pálmason, formaður stjórnarnefndar spítalans, segir að krafan sé ljós og lækka þurfi rekstrarkostnaðinn um nokkur hundruð milljónir. Fjárframlög til Landspítalans nema um 27 milljörðum króna og sé mið tekið af því þarf að lækka rekstrarkostnað um rúmlega 500 milljónir. Stjórnarnefnd Landspítalans hefur þegar lagt fyrir heilbrigðisráðherra að fjölga úrræðum fyrir aldraða sem og búsetuúrræðum fyrir geðfatlaða þar sem það sé þjóðhagslega of dýrt að hafa þessa hópa inni á spítalanum. Pálmi segir að að stjórnarnefndin hyggist verja reksturinn og hann bendir á að spítalanum sér gert samkvæmt lögum að sinna tilteknu hlutverki. Reynt verði með öllum ráðum að gera það. Pálmi segir enn fremur að það sé af og frá að gripið verði til uppsagna, stjórnin telji sjúkrahúsið hafa farið í gegnum slíkt ferli og ekki verði lengra gengið í því. Aðspurður um það hvernig hægt sé að lækka rekstrarkostnað án þess að þess að grípa til niðurskurðar segir Pálmi að það sé í höndum stjórnenda spítalans að gera það og þeir hafi tekið saman ýmsa möguleika í því sambandi en auðvitað verði stjórnvöld að aðstoða við þá vinnu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×