Sport

Getur farið frítt frá KR

KR-ingurinn Grétar Hjartarson hélt til Englands á sunnudag til móts við enska 2. deildarliðið Doncaster. Grétar verður hjá félaginu fram á föstudag og þá kemur í ljós hvort félagið býður honum samning. Grétar spilaði æfingaleik með varaliði Doncaster gegn Scunthorpe á þriðjudag og skoraði tvö mörk í 3-2 sigri Doncaster. "Ég spilaði alveg þokkalega og mér skildist að þeir hefðu verið ánægðir með mína frammistöðu," sagði Grétar í samtali við Fréttablaðið í gær. "Mér líst þokkalega á þetta félag. Þeir eru með gamlan 10 þúsund manna völl en þeir eru að byggja nýjan 25 þúsund manna völl sem á að vera tilbúinn í mars á næsta ári. Stefnan hjá félaginu er að fara beint upp í ár en liðið á góðan möguleika á að komast í umspil um sæti." Grétar samdi við KR í byrjun nóvember og hann var séður í samningagerðinni en í samningi hans við KR er klásúla um að hann geti gengið til liðs við erlent félag fyrir 1. febrúar og það án þess að KR fái krónu fyrir hann. "Það er rétt að ég get farið frítt til 1. febrúar. Það er líka ljóst að ég mun ekki semja við Doncaster nema ég fái mjög freistandi tilboð. Svo er líka mjög gott að vera í KR," sagði Grétar, sem er einnig undir smásjánni hjá skoska félaginu Hearts og tveimur enskum 1. deildarfélögum. "Það getur vel verið að ég kíki á aðstæður hjá þessum félögum þegar ég er búinn að ljúka veru minni hjá Doncaster. Ég mun halda öllum möguleikum opnum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×