Innlent

Hættan margfaldast við blæðingar

Hættan á að íþróttakonur slíti krossbönd margfaldast þegar þær eru á blæðingum eða hafa egglos, samkvæmt nýlegum rannsóknum. Verið er að undirbúa rannsókn á krossbandasliti hjá kvenfólki hér á landi. Slit á krossböndum eru algeng íþróttameiðsl á Íslandi. Allt að tvö hundruð krossbandaaðgerðir eru gerðar árlega hér á landi en biðtími fyrir slíka aðgerð er um þrír mánuðir. Tíðni áverka af þessu tagi er allt að sex sinnum meiri hjá konum en körlum, að sögn Sveinbjörns Brandssonar bæklunarskurðlæknis. Samkvæmt bandarískum og norskum rannsóknum virðast ástæðurnar vera líffræðilegs eðlis. Sveinbjörn segir að hormónaþættir spili þarna nær örugglega inn í og vissar rannsóknir sýni klárlega fram á aukna tíðni krossbandaslita í kringum fyrstu daga blæðinga og í kringum egglos. Mismunur á kynjunum hvað þetta varðar tengist einnig vöðvabyggingu, lögun fóta og fleiri þáttum. Sveinbjörn bendir á að við egglos og blæðingar verði sinar í líkama kvenna mýkri vegna aukins hormónaflæðis. Hann segir langtum fleiri karla en konur fara í krossbandaaðgerð en að það sé þó að breytast, meðal annars vegna þess að aðgerðirnar séu einfaldari en áður. Stelpur sætti sig ekki við að sitja heima og prjóna heldur vilji vera virkar í íþróttum og það sé gott mál. Stefnt er að því að rannsaka sérstaklega krossbandaslit hjá kvenfólki hér á landi. Sveinbjörn segir að gott sé að gera rannsóknir á Íslandi því Íslendingar séu viljugir til að taka þátt í þeim. Til standi að rannsaka útbreiðslu og eðli krossbandsáverka hjá kvenfólki og jafnframt verði reynt að vinna forvarnastarf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×