Innlent

Skapar tortryggni í garð HÍ

Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, segir að það kunni að orka tvímælis að starfsmenn skólans taki beinan þátt í rannsóknum á umdeildum þjóðfélagsmálum. Þetta segir hann aðspurður um skýrslu Tryggva Þórs Herbertssonar, forstöðumanns Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, og Jóns Þórs Sturlusonar, sérfræðings á stofnuninni, sem þeir gerðu í eigin nafni fyrir olíufélögin. Skýrslan var lögð fram til varnar olíufélögunum í haust vegna verðsamráðs þeirra. Við málflutning fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála í síðustu viku deildu lögmenn Samkeppnisstofnunar hart á skýrsluna. Tvímenningarnir fullyrtu í skýrslunni að mat Samkeppnisstofnunar á hagnaði olíufélaganna af samráði væri órökstutt og líkur væru á að hagnaðurinn ætti sér eðlilegar skýringar. Páll segir að þetta fyrirkomulag verði trúlega skoðað. Hins vegar sé ljóst að mönnum sé frjálst að taka að sér verkefni utan við starf þeirra hjá háskólanum. "Ég hef fulla trú á því að fræðimenn hér vinni af heilindum og heiðarleika en þegar menn vinna álit sem er keypt af aðilum sem eiga ríkra hagsmuna að gæta þá getur það vakið tortryggni. Það er óheppilegt fyrir háskólann."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×