Innlent

Erfiðast að finna bílastæði

Erfiðasti hlutinn af meðferð margra sjúklinga er að finna bílastæði við Landspítalann við Hringbraut. Einn af stjórnendum spítalans segir vandann aukast með hverju ári og að hann verði ekki leystur fyrr en nýr spítali verði byggður. Það er sama við hvern rætt er; allir sem átt hafa erindi á Landspítalann þekkja vandamálið sem fylgir því að fá stæði við sjúkrahúsið. Þegar fréttastofa fór á stúfana í morgun fann hún ekki stæði fyrr en komið var að endimörkum lóðarinnar, við geðdeildina rétt út við Snorrabraut. Það má reyndar teljast gott miðað við marga sem þurfa að leggja upp við Hallgrímskirkju og ganga þaðan. Hvert einasta stæði er skipað frá því snemma að morgni og meira að segja ófatlaðir leggja í stæði fatlaðra. Á Landspítalann koma að staðaldri hundruð ef ekki þúsundir manna til lengri eða skemmri meðferðar. Margir þeirra hafa haft á orði við starfsmenn spítalans að erfiðasti hluti meðferðairnnar sé að finna bílastæði. Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri tækni og eigna á Landspítalanum, segir að ástand bílastæðamála hafi farið versnandi með hverju árinu. Hann segir að hver einasti grasblettur á svæðinu sé nýttur undir bílastæði, en hann sér fram á bjartari tíð með haustinu. Þá sé ráðgert að taka helminginn af Hringbrautinni þannig að hún verði tvær akreinar í stað fjögurra og þá sé hægt að taka tvær akreinar og eyjuna undir bílastæði og þá fáist um 200 stæði til viðbótar. Það dugi hins vegar ekki til að leysa allan vandann. Heimildir fréttastofu herma að mikil brögð séu að því að starfsmenn leggi í stæðin næst spítalanum. Ingólfur segir að starfsmönnum sé uppálagt að leggja fjær, til að mynda hafi þeim í vetur verið bent á bílastæði sunnan Hringbrautar, en þar er pláss fyrir um 100 bíla. Það hafi verið vannýtt. Ingólfur segir að bílastæðavandinn leysist ekki nema með tilkomu nýs spítala. Í tengslum við það séu hugmyndir um að byggja bílastæðahús og hann sé bjartsýnni á að það verði að veruleika miðað við umræðuna síðustu tíu daga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×