Innlent

Óheilbrigðir viðskiptahættir

"Þetta er óréttlátt gagnvart öðrum bjóðendum og óheilbrigðir viðskiptahættir," segir Bergþór Jónsson annar eigenda verktakafyrirtækisins Mótás sem hefur sent bæjarráði Garðabæjar skriflegar athugasemdir við útboð á byggingarlóðum við Bjarkarás í Garðabæ. Alls bárust 49 tilboð í lóðirnar en í síðustu viku ákvað bæjarráð Garðabæjar að hefja viðræður við forsvarsmenn Frjálsa fjárfestingarbankans hf. vegna tilboðs í tvær fjölbýlishúsalóðir við Bjarkarás sem nemur rúmlega 175 milljónum króna. Hæsta tilboðið kom frá Fasteignafélaginu Hlíð ehf. og var upp á rúmlega 200 milljónir en fyrirtækið féll frá því og því sneru bæjaryfirvöld sér að Frjálsa fjárfestingarbankanum. Sömu eigendur eru hins vegar að þessum félögum og við það hefur Bergþór gert athugasemdir auk annarra tilfella þar sem fyrirtæki sendi inn fleiri en eitt tilboð. Bergþór segir að nauðsynlegt sé að setja fyrir fram leikreglur á útboð sem þessi. Hann hefur ekki fengið nein viðbrögð frá yfirvöldum í Garðabæ vegna athugasemdarinnar. Ekki náðist í Ásdísi Höllu Bragadóttur, bæjarstjóra í Garðabæ vegna málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×