Innlent

Rífandi gangur í útsölum

Sigurður Jónsson forstjóri Samtaka verslunar og þjónustu kvaðst hafa tekið stöðuna hjá nokkrum þeirra í síðustu viku og svo virtist sem rífandi gangur væri í þeim. "Útsölurnar hafa færst fram og byrja milli jóla og nýárs," sagði hann. "Kaupmenn sem ég ræddi við sögðu að janúar væri betri sölumánuður heldur en febrúar og mars. Að vísu verður þetta aðeins öðruvísi í ár því páskarnir eru í lok mars og þeir hleypa þessu aðeins upp miðað við í fyrra, því þá voru þeir í apríl. Ég held að það sé almennt bjartsýnishljóð í mönnum." Varðandi jólaverslunina sagði Sigurður að hún hefði aukist um rúmlega tíu prósent frá því í fyrra, þegar öll kurl væru komin til grafar. "Menn halda alltaf að toppnum sé nú náð, en það virðist vera stöðug aukning og alltaf að bætast við," sagði hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×