Innlent

Veður versnar á Vestfjörðum

MYND/Elma Guðmundsdóttir
Veður fer nú versnandi á norðanverðum Vestfjörðum og er búið að rýma átta hús í Bolungarvík eftir að þrjú snjóflóð féllu úr Traðarhyrnu, en þau stöðvuðust rétt ofan við byggðina. Þrjú hús hafa verið rýmd á Ísafirði og nokkrir bæir í Önundarfirði og Dýrafirði vegna snjóflóðahættu þar. Auk þess hafa nokkur athafnasvæði verið lýst hættusvæði. Þá verður öllum þjóðvegum á milli þéttbýlisstaðanna lokað klukkan sex og vakt sett á alla umferð um Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði. Snjó kyngdi niður á svæðinu frá því í nótt og fram undir hádegi en síðdegis hefur gengið á með dimmum éljum. Talið er að frá því í morgun hafi fallið allt að 35 sentímetra jafnfallinn snjór víðast hvar á norðanverðum Vestfjörðum. Þá er spáð 15 til 23 metra vindi á sekúndu af norðri þegar líður á kvöldið þannig að búast má við gríðarlegum skafrenningi á svæðinu ef spáin gengur eftir. Almannavarnanefndir á svæðinu og Veðurstofan munu fylgjast grannt með framvindu mála í kvöld og nótt, en ef veðrið skellur á er búist við að það gangi niður í nótt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×