Innlent

Bandaríkjamenn inn á Evrópumarkað

Bandarískir útvegsmenn leita nú sem aldrei fyrr inn á Evrópumarkað með sjávarafurðir sínar í samkeppni við íslenskar afurðir vegna sterkrar stöðu evrunnar gagnvart dollaranum. Sagt var frá þessari þróun snemma á síðasta ári, þar sem spáð var enn meiri aukningu, og hefur það gengið eftir og gott betur. Nú er komið í ljós að útflutningur Bandaríkjamanna á fiski til Evrópusambandsins jókst um fjórðung í fyrra frá árinu áður, sem hafði þá aukist verulega frá árinu þar áður. Útflutningurinn í fyrra nam 280 þúsund tonnum af fiskafurðum og er uppistaðan afurðir úr alaskaufsa, sem er hvítfiskur í samkeppni við þorsk og ýsu, lýsingur og Surimi, eða krabbaeftirlíkingar úr fiskholdi. Sem dæmi um aukningu í sölu á alaskaufsanum fluttu Bandaríkjamenn aðeins 3.900 tonn af honum til Evrópu fyrir fjórum árum en 90 þúsund tonn í fyrra sem þýðir að magnið hefur tuttugu og tvöfaldast á tímabilinu. Andvirði útflutningsins jókst á sama tíma úr 500 milljónum í ellefu milljarða. Íslenskir útflytjendur til Evrópusambandsins segjast vera farnir að vita vel af þessari samkeppni þótt þeir hafi ekki glatað samningum vegna hennar, en ef til vill sé erfiðarara að halda uppi verði fyrir íslenskar afurðir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×