Innlent

Afsökunarbeiðni birt í vikunni

Afsökunarbeiðni til íröksku þjóðarinnar vegna stuðnings Íslands við innrásina í Írak mun birtast í bandaríska dagblaðinu New York Times í þessari viku, þeirri sömu og George W. Bush Bandaríkjaforseti verður settur í embætti. Á fimmta þúsund manns hefur lagt fram fé í söfnun Þjóðarhreyfingingarinnar vegna yfirlýsingarinnar. Alla jafna kostar heilsíðuauglýsing í blaðinu 12 milljónir íslenskra króna en Þjóðarhreyfingin greiðir 2,8 milljónir þar eð auglýsingadeild New York Times er í sjálfsvald sett hvenær í vikunni auglýsingin birtist. Hans Kristján Árnason, ábyrgðarmaður söfnunar Þjóðarhreyfingarinnar, segir að starfsmaður blaðsins hafi komið fram með þá hugmynd að óvitlaust væri að birta auglýsinguna í þessari viku því Bush Bandaríkjaforseti verður settur í embætti á fimmtudag. Hann segir að áfram verði tekið við framlögum í söfnunarsímanum 90-20000, eða fram að þeim degi sem auglýsingin birtist. Lokauppgjör hefur ekki farið fram en Þjóðarhreyfingin telur sig hafa fengið framlög sem standa undir birtingarkostnaði auglýsingarinnar og öðrum kostnaði. Liðsmenn hreyfingarinnar hafa unnið í sjálfboðavinnu að verkefninu en fjarskipafyrirtæki taka hálfa milljón í umboðslaun. Einnig bætast við auglýsingar í íslenskum ljósvaka- og prentmiðlum og hönnunarkostnaður. Afgangur, ef einhver verður, rennur til Rauða kross Íslands að sögn Hans Kristjáns.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×