Sport

Gamlir Valsarar borga brúsann

Hlutafélagið Valsmenn hf. mun, ef ekkert óvænt kemur upp á, festa kaup á byggingarétti á lóð Knattspyrnufélagsins Vals á Hlíðarenda fyrir 856 milljónir en samkvæmt deiliskipulagi er ráðgert að byggja 170 íbúðir auk atvinnuhúsnæðis þar á næstu árum. Hluthafafundur félagsins á reyndar eftir að samþykkja kaupin en ekki er talið líklegt að hluthafarnir séu þessu mótfallnir. Það eina sem gæti haft áhrif á kaupin er að ákveðið svæði sem byggingarréttur er á, er á helgunarsvæði flugvallarins í Vatnsmýrinni, nánar tiltekið flugbrautar 06-24 og því er óheimilt að byggja þar eins og stendur. Helguninni mun hins vegar að öllum líkindum verða aflétt á næstunni. Grímur Sæmundsen, formaður Vals, sagði í samtali við Fréttablaðið að með þessari sölu á byggingaréttinum væri fjárhagslegur grundvöllur fyrir uppbyggingu nýrra og glæsilegra mannvirkja á svæði Vals tryggður auk þess sem allar skuldir félagsins yrðu greiddar upp en þær eru um 260 milljónir . "Það er auðvitað gleðilegt að þetta félag, sem er eingöngu skipað Valsmönnum, skuli sjá sér hag í því að festa kaup á þessum byggingarétt. Það skipti okkur gríðarlegu máli að selja þennan byggingarétt enda fjarmögnum við stærstan hluta mannvirkjanna með því," sagði Grímur. Hann sagði aðspurður að kostnaður við byggingu nýs félagsheimilis, íþróttahúss, stúku og knattspyrnuvallar væri rúmlega milljarður. "Þessi framkvæmd er fjármögnuð með framlögum frá Reykjavíkurborg og síðan sölu á byggingaréttinum," sagði Grímur en framlög Reykjavíkurborgar til Vals næstu þrjú árin eru samanlagt 515 milljónir. Grímur sagði að stefnan væri að bjóða út framkvæmdir Vals nú í febrúar og að hann ætti ekki von á öðru en að þessi áfangi, sem sést á myndinni hér til hliðar, verði klár haustið 2006. Aðspurður um hvort nýr stórveldistími væri að renna upp hjá Val sagði Grímur að allt stórveldistal væri út í hött. "Við erum félag með sterka hefð og stefnan hefur alltaf að geta boðið upp á öflugt unglinga- og æskulýðsstarf í bland við afreksstefnu. Við erum afskaplega ánægðir með okkar svæði sem verður án nokkurs vafa það glæsilegasta á landinu." Brynjar Harðarson, fasteignasali og stjórnarformaður Valsmanna hf., sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að hann liti á þessi kaup hlutafélagsins á byggingaréttinum sem tækifæri fyrir sanna Valsmenn til að þróa og hafa áhrif á það hvernig Valssvæðið liti út í framtíðinni. Brynjar sagði jafnframt að Valsmenn hf myndu selja þetta á ákveðnu stigi en ekki hefði enn verið tekið ákvörðun um hvenær það yrði. "Það er gífurlega jákvætt fyrir félagið að allur byggingarétturinn sé á einni hendi. Við hyggjumst þróa þetta áfram með þeim arkitektum sem hafa teiknað nýju íþróttamannvirkin þannig að hverfið fær heilstæðan svip," sagði Brynjar. Hluthafafundur Valsmanna hf. hefur ekki enn samþykkt þetta en Brynjar sagðist ekki búast við öðru en kaupin yrðu samþykkt. Hluti af lóðunum verður byggingarhæfur í september á þessu ári en Brynjar sagðist ekki vera viss um að byrjað yrði strax á byggja. Byggingarétturinn, sem Valsmenn hf. hafa fest kaup á, nær yfir 25 þúsund fermetra svæði. Þar af er gert ráð fyrir 169 íbúðum á 18 þúsund fermetra svæði og sjö þúsund fermetra atvinnuhúsnæði. Brynjar sagði eigið fé félagsins vera um 50 milljónir en allt benti til þess að hlutafé yrði aukið upp í 100 milljónir kjölfar þessara viðskipta sem hlutafélgið vonast til að græða sem mest á. "Það er auðvitað alveg ljóst að við erum ekki að leika okkur. Þetta eru viðskipti og okkar kappsmál er að byggja upp glæsilegt svæði fyrir Valsmenn, bæði hvað varðar íþróttamannvirki og íbúðarhúsnæði," sagði Brynjar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×