Sport

Dreymir um úrvalsdeildina

Tímabilið fór ekki vel af stað hjá Heiðari og honum gekk ákaflega illa að skora. Hann hafði aðeins skorað eitt mark í deildinni þar til hann skoraði tvö mörk gegn Derby 16. október síðastliðin. Síðan hefur Heiðar farið mikinn með liði Watford en hann er alls búinn að skora 13 mörk í vetur. Frammistaða hans hefur vakið athygli á Englandi og síðustu daga hefur hann verið orðaður við 1. deildarlið West Ham og úrvalsdeildarlið Charlton, sem Hermann Hreiðarsson leikur með. "Ég hef heyrt af þessum áhuga í blöðunum en sjálfur hef ég ekki heyrt neitt og veit ekki hvaðan þetta kemur," sagði Heiðar í samtali við Fréttablaðið í gær. "Ég veit ekkert hvort eitthvað sé til í þessu en það væri óneitanlega gaman ef það væri áhugi á mér." Heiðar spilaði með Watford í úrvalsdeildinni er hann fyrst gekk til liðs við félagið árið 2000. Eftir að Watford féll úr úrvalsdeildinni hefur Heiðar nokkrum sinnum verið orðaður við lið í úrvalsdeildinni en hingað til hefur lítið alvara verið á bak við þær sögusagnir. Frammistaða Heiðars í vetur gæti þó fleytt honum aftur í deild þeirra bestu á Englandi og hann neitar því ekki að þangað væri gaman að komast á ný. "Auðvitað dreymir mann um að leika í úrvalsdeild. Annað væri alveg galið. Annars er ég ekki að missa neinn svefn yfir þessum sögusögnum. Ég einbeiti mér bara að því að spila áfram vel og skora fyrir Watford. Svo kemur bara í ljós hvort það skilar mér einhverju," sagði Heiðar sem á átján mánuði eftir af samningi sínum við félagið. Hann þakkar góðu gengi í vetur því að hann sé loksins orðin laus við meiðsli. "Ég hef verið að burðast með meiðsli í tvö ár og er loksins orðinn 100%. Fyrir vikið líður mér vel og það spillir ekki fyrir að liðið hefur verið að spila ágætlega og ég hef verið að fá færi sem mér hefur gengið ágætlega að nýta," sagði Heiðar Helguson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×