Sport

Liverpool á uppleið

Liverpool komst upp í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar í dag með 1-2 útisigri á Norwich. Það voru þeir Luis Garcia og John Arne Riise sem skoruðu mörk Liverpool en glæsilegt mark hins 18 ára gamla Ryan Jarvis á 88. mínútu kom einfaldlega of seint og fór Liverpool því með öll stigin heim. "Við stjórnuðum leiknum í seinni hálfleik og áttum fullt af færum. Við höfum unnið þrjá leiki á níu dögum og aðeins tapað fyrir Chelsea þrátt fyrir að vera betra liðið. Það þýðir að við getum vel hugsað um að lenda í einu af fjórum efstu sætum deildarinnar og veitir okkur mikið sjálfstraust," sagði Rafael Benitez, stjóri Liverpool, eftir leikinn. Andy Johnson var enn og aftur á skotskónum fyrir Crystal Palace og skoraði bæði mörkin í dýrmætum sigri liðsins á Aston Villa. Johnson, sem margir giska á að verði valinn í enska landsliðið fyrir leikinn gegn Hollandi í næsta mánuði, er nú farinn að nálgast Thierry Henry í keppni markahæstu manna og er kominn með 13 mörk. Stærri lið hafa borið víurnar í Johnson að undanförnu en Ian Dowie, stjóri liðsins, segir það ekki til umræðu að Johnson verði seldur. "Hann er okkar leikmaður og verður það. Ég og hann náum mjög vel saman og hann hefur enga ástæðu til þess að fara annað. Og ef þið þekktuð hann þá mynduð þið sjá að það verður ekki vandamál. Ég sé það í augunum á honum að hann mun ekki fara," segir Dowie. Blackburn hefur leikið vel að undanförnu og varð engin breyting á því gegn Charlton í gær. Brett Emerton skoraði eina mark leiksins en Blackburn hefði getað farið með mun stærri sigur af hólmi. "Við höfum náð að koma okkur talsvert upp töfluna og nú er komið smá gap á milli okkar og neðstu liðanna. En ég tel okkur vera með það gott lið að við eigum að horfa upp fyrir okkur og stríða toppliðunum í stað þess að einblína á að hleypa ekki neðri liðunum upp fyrir okkur á ný," sagði Mark Hughes, stjóri Blackburn, eftir leikinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×