Erlent

Sigur Demókrata á Grænlandi

Í sveitarstjórnarkosningum sem fram fóru á Grænlandi í vikunni breyttist skipting atkvæða milli vinstri- og hægriflokka sáralítið, en miklar sviptingar urðu á hægri vængnum. Demókratarnir, borgaralegur flokkur sem bauð fram í fyrsta sinn, hlaut 13 prósent atkvæða, en fylgið tók hann að mestu frá öðrum flokkum á hægri vængnum. Atassut, sem lengi hefur verið stærsti borgaralegi flokkurinn á Grænlandi, fékk alls um 19 prósent atkvæða, en það er 5 prósentum minna en í síðustu kosningum. Frambjóðendabandalagið (Kandidatforbundet) missti helming fylgis síns, svo það fór úr 8 prósentum í fjögur. Frá þessu er greint á fréttavef grænlenska útvarpsins, KNR. Demókratarnir fengu sex menn kjörna í bæjarstjórn Nuuk og er þar nú næststærsti flokkurinn. Á vinstri vængnum urðu ekki miklar breytingar. Jafnaðarmannaflokkurinn Siumut hélt stöðu sinni sem stærsti flokkurinn, með alls um 41 prósent atkvæða. Það er 3,5 prósentum minna en síðast. Inuit Atagatigiit fékk 23 prósent atkvæða, sem þýðir 2,3 prósentustiga fylgistap.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×