Erlent

Íhugaði að segja af sér árið 2000

Jóhannes Páll páfi íhugaði alvarlega að segja af sér um síðustu aldamót, að því fram kemur í erfðaskrá hans sem birt var í dag. Þar kemur einnig fram að snemma á páfaferli sínum hefði hann íhugað að láta jarða sig í heimalandi sínu, Póllandi. Erfðaskrána hóf páfi að rita skömmu eftir að hann tók við embætti, en í henni segist hann ekki láta eftir sig neinar veraldlegar eigur. Þá fer hann fram á að minnisblöð sín verði brennd. Eins og kunnugt er lést páfi á laugardaginn var, en hann trúði því að hann ætti að leiða rómversk-kaþólsku kirkjuna inn í nýtt árþúsund. Það gerði hann en árið 2000 skrifaði hann: „Ég vona að Hann (Guð) hjálpi mér að meta hversu lengi ég eigi að gegna þessari þjónustu,“ en þá þegar hafði heilsu hans hrakað og hann var kominn með Parkinsons-veiki. Hefði hann sagt af sér árið 2000 hefði hann verið fyrsti páfinn sem gerði það sjálfviljugur í 700 ár. Í lok erfðaskrárinnar, sem er 15 blaðsíður, þakkar páfi rómversk-kaþólsku kirkjunni, öðrum trúarsöfnuðum og listamönnum, vísindamönnum og stjórnmálamönnum fyrir stuðning í embættistíð sinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×