Innlent

Í ósamræmi við loforð ráðamanna

Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, segir afleiðingar frumvarps um eftirlaun æðstu embættismanna ríkisins í hróplegu ósamræmi við loforð ráðamanna um að jafna lífeyrisréttindi í landinu. Hann segir sérkennilegt að sendiherrar teljist ekki vera á vinnumarkaði. Verkalýðsforystan gagnrýndi harðlega umdeilt frumvarp um eftirlaun æðstu embætti ríkisins en það var samþykkt í árslok 2003. Í kjölfar lagasetningarinnar fengu sjö fyrrverandi ráðherrar greiddar sautján milljónir króna í eftirlaun á síðasta ári en þeir eru enn í fullu starfi á vegum ríkisins, meðal annars sem sendiherrar. Grétar segir afleiðingar eftirlaunafrumvarpsins ekki koma á óvart. Hann segist þó ekki muna betur en að stuðningsmenn frumvarpsins hafi útilokað að svona gæti gerst gagnvart þeim aðilum sem væru á vinnumarkaði. Alþýðusambandið benti á sínum tíma á að afleiðingar eftirlaunafrumvarpsins kynnu að stangast á við loforð ráðamanna varðandi lífeyrismál landsmanna. Grétar segir þetta fjarri því að vera eitthvert innlegg í það heldur einmitt andstæðan. Gagnvart ASÍ er þetta jafnvel ennþá alvarlegra en þegar frumvarpið var samþykkt, m.a. vegna hækkandi lífaldurs og hækkandi tíðni örorku, að sögn Grétars.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×