Innlent

Ofgreitt fyrir Stjörnubíósreit

Reykjavíkurborg borgaði 55 prósentum meira en hæsta markaðsverð á svæðinu þegar hún keypti Stjörnubíósreitinn við Laugaveg. Þetta kemur fram í úttekt sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gerðu. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að um hreina spillingu hafi verið að ræða. Kjartan segir að kostnaður borgarinnar hafi verið miklu hærri en við aðrar sambærilegar lóðir á þessum tíma. Ef reiknað sé yfir í fermetraverð sé ljóst að kostnaður borgarinnar við kaupin af Jóni Ólafssyni hafi verið um 39 þúsund krónur á hvern fermetra byggingarréttar. Séu teknar sambærilegar lóðir, góðar lóðir við Laugaveg og í næsta nágrenni, þá sé ljóst að hámarksmarkaðsverð lóða á þessum tíma hafi verið um 25 þúsund krónur á fermetra. Kaup borgarinnar hafi verið, eftir því sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins reikna út, 55 prósentum yfir hæsta markaðsverði á svæðinu þegar salan hafi farið fram. Kjartan segir að lóðirnar sem notaðar hafi verið til viðmiðunar séu þrjár talsins og hafi allar verið á eftirsóttum stöðum við Laugaveginn. Hann segir óljóst að borgin tapi stórfé á þessum lóðakaupum, kannski um 60-80 milljónum króna. Sjálfstæðismönnum í borgarstjórn hafi þótt grunsamlegt á sínum tíma að borgin hefði keypt lóð og ætlaði að byggja bílastæðahús á þessum stað því að bílastæði á þessum stað hefðu verið vannýtt. Vitatorg, sem sé næsta bílastæðahús, sé verst nýtt af öllum húsunum. Kjartan segir að sér sýnist skýringin á lóðakaupunum vera sú að þarna hafi verið hrein og klár spilling á ferðinni. Aðspurður hvað sjálfstæðismenn hygðust gera í málinu sagði Kjartan að þeir hefðu beðið um að innri endurskoðun borgarinnar yrði falið að gera úttekt á kaupunum. Hann búist við að hún komist að sömu niðurstöðu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×