Innlent

Hættuástandi aflétt á Vestfjörðum

Almannavarnanefnd á Ísafirði ákvað á sjöunda tímanum í morgun að aflétta hættuástandi á Ísafirði og getur fólk, sem rýma þurfti hús sín þar í gær, snúið aftur til síns heima. Hættuástandi hefur líka verið aflétt í Bolungarvík og á Patreksfirði. Hættustigi þar hefur verið aflétt en við tekur viðbúnaðarstig. Jafnframt hefur takmörkunum á umferð, sem ákveðnar voru í gær, verið aflétt og nú er búið að ryðja alla vegi á norðanverðum Vestfjörðum.  Rúmlega hundrað manns úr 37 húsum þurftu að yfirgefa heimili sín á Vestfjörðum í gær vegna hættunnar, 49 manns á Patreksfirði, 23 á Ísafirði, í Hnífsdal og í dreifbýli Ísafjarðarbæjar og 31 í Bolungarvík og á tveimur bæjum þar í grennd. Hvassviðrið, sem spáð var vestra í gærkvöldi og fram á nótt fór að mestu fram hjá fjörðunum og því hefur snjósöfnun í hlíðum og giljum væntanlega orðið minni en óttast var. Hvergi er vitað til þess að snjóflóð hafi fallið í eða við byggð í nótt. Hæglætisveður er vestra þessa stundina og lítið snjóaði í nótt. Að sögn Leifs Svavarssonar sem stóð snjóflóðavaktina á Veðurstofunni í nótt var veður mun betra en horfur voru á og spáin fyrir Vestfirði í dag er góð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×