Innlent

Skilja illa ráðningarsamninga

Meira en 40 prósent innflytjenda á Austurlandi og Vestfjörðum hafa áhuga á að stofna til eigin reksturs. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem einnig leiðir í ljós að nærri tveir þriðju hlutar sama hóps skilja illa eða alls ekki ráðningarsamning sinn. Það var Fjölmenningasetur sem lét gera rannsóknina þar sem könnuð voru viðhorf innflytjenda á Austurlandi og Vestfjörðum til búsetu, atvinnu og fleiri þátta. Þátttakendur komu frá Póllandi, Taílandi, Fillipseyjum og gömlu Júgóslavíu og var svarhlutfallið 58%. Meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum rannsóknarinnar er að yfirgnæfandi meirihluti svarenda, eða 92 prósent, hefur áhuga á að læra íslensku eða vill læra hana betur. Sem stendur talar fimmtungur innflytjendanna einungis móðumál sitt. Þá tala meira en 70 prósent svarenda alltaf móðurmál sitt við börnin sín. Þegar staða innflytjendanna á vinnumarkaði er skoðuð kemur í ljós að 74 prósent voru virk á atvinnumarkaði eða stunduðu nám í heimalandi sínu áður en komið var hingað til lands. Eftir að hingað er komið eru meira en níu af hverjum tíu á vinnumarkaði samkvæmt könnuninni og þeir sem það eru ekki eru í námi. Atvinnuleysi er því nær óþekkt meðal innflytjendanna Sérstaka athygli vekur hins vegar að þrátt fyrir að átta af hverjum tíu innflytjendum hafi skrifað undir ráðningarsamning skilja 62 prósent illa eða ekki hvað stendur í samningnum. Við því er aðeins eitt ráð. Elsa Arnardóttir, framkvæmdastjóri Fjölmenningarseturs, segir að þýða verði samningana á fleiri tungumál, en í dag eru þeir aðeins á ensku og íslensku. Enn eitt atriði sem athygli vekur er að mjög mikið frumkvæði virðist búa í innflytjendunum og hafa 40 prósent þeirra áhuga á að stofna eigið fyrirtæki. Tólf prósent hafa þegar gert það en til samanburðar má geta þess að rannsóknir benda til að hlutfallið sé á milli fimm og sjö prósent hjá Íslendingum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×