Innlent

Renna hýru auga til Helguvíkur

Nýjasta álver Íslendinga gæti risið á Reykjanesi. Bandarískt álfyrirtæki hefur skoðað möguleika á byggingu álvers í Helguvík og brasilískt fyrirtæki skoðar einnig uppbyggingu manganverksmiðju á svæðinu. Iðnaðarsvæðið í Helguvík er um 180 hektarar sem samsvarar um 180 knattspynuvöllum. Nálægð svæðisins við alþjóðaflugvöll og stóskipahöfn og aðgangur að vinnuafli gerir svæðið að einu helsta iðnaðarsvæði landsins. Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir fjölmarga aðila, bæði innlenda og erlenda, skoða möguleika á uppbyggingu á svæðinu þrátt fyrir að enn sé ekki búið að útiloka að þarna rísi stálpípuverksmiðja eins og stefnt hefur verið að. Hann segir að bærinn hafi átt viðræður við ýmsa aðila, verið sé að skoða manganframleiðslu sem ekki sé ósvipuð járnblendisframleiðslu. Þá hafi Bandaríkjamenn verið að kanna grundvöll fyrir álveri og stálpípuverksmiðju og Japanar að athuga með álþynnuverksmiðju. Innlendir aðilar tengdir fluginu hafi einnig verið að velta upp möguleikum á tengingu stórskipahafnarinnar við alþjóðaflugvöllinn. Allt séu þetta áhugaverð verkefni en þetta sé sýnd veiði en ekki gefin.  Síðast þegar rætt var um byggingu álvers á suðvesturhorni landsins átti það að rísa á Keilisnesi á Reykjanesi en nú virðist Helguvíkursvæðið talið ákjósanlegra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×