Landsliðsmaðurinn Guðjón Valur Sigurðsson heldur uppteknum hætti með liði sínu Gummersbach í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik, en Guðjón skoraði 12 mörk í sigri liðsins á Wilhemshaven í gærkvöld 28-21.
Róbert Gunnarsson náði ekki að skora fyrir Gummesbach, en Gylfi Gylfason skoraði eitt mark fyrir Wilhemshaven.
Alexander Petersson var atkvæðamikill hjá Grosswallstadt þegar liðið tapaði fyrir Kiel á heimavelli 35-27, Alexander skoraði níu mörk fyrir lið sitt.
Magdeburg gerði jafntefli við Pfullingen 26-26 og þar skoraði Sigfús Sigurðsson tvö mörk.
Lemgo vann auðveldan sigur á Dusseldorf 41-26, þar sem Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði þrjú mörk fyrir Lemgo, en Markús Máni Michaelson skoraði tvö fyrir Dusseldorf.
Önnur úrslit urðu þau að Göppingen sigraði Östringen 27-26 og Nordhorn lagði Hamborg 36-28.
Guðjón Valur og félagar eru í toppsætinu með 22 stig, en Flensburg, Kiel og Magdeburg hafa öll hlotið 18 stig. Guðjón Valur er sem fyrr langmarkahæstur í deildinni með 107 mörk í 12 leikjum.