Innlent

Fundust látin

MYND/Vísir

Maður á fimmtugsaldri og kona á fertugsaldri fundust látin í íbúð sem þau leigðu á Frakkastíg í Reykjavík eftir hádegi í dag. Talið er víst að þau hafi látist af ofneyslu eiturlyfja.

Maðurinn og konan eru bæði þekktir sprautufíklar og fundust þau í dag í ósamþykktri kjallaraíbúð sem þau hafa leigt undanfarið. Það voru nágrannar fólksins sem báðu lögreglu um að athuga málið en þau voru farin að undrast um þau. Talið er víst að þau hafi látist úr of stórum skammti eiturlyfja eða að efnið sem þau neyttu hafi verið sterkara en þau gerðu sér grein fyrir. Ekki hefur þó verið útilokað að um sjálfsvíg hafi verið að ræða. Grunur leikur á þau hafi neytt heróíns eða contalgins en það liggur þó ekki fyrir fyrr en eftir krufningu. Þá mun líka koma í ljós hvenær fólkið lést en talið er að um tveir sólarhringar séu síðan þau létust. Íbúðin sem þau bjuggu í er þekkt meðal fíkla en þangað hefur óreglufólk vanið komur sínar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×