Sport

Öll liðin lögleg næsta sumar

Knattspyrnusamband Íslands hefur hert kröfur á úrvalsdeildarliðin og þurfa þau öll að standast mat eftir Leyfiskerfi KSÍ sem byggir á samskonar kerfi og evrópska sambandið hefur tekið í notkun. Á heimasíðu KSÍ í gær kom fram að öll tíu liðin hafi staðist skoðun Leyfisráðs KSÍ en það samþykkti á fundi sínum á mánudag leyfi til þátttöku í Landsbankadeild karla 2005 til handa öllum umsækjendum, þ.e. þeim 10 félögum sem unnið höfðu sér rétt til að leika í deildinni, FH, Fram, Fylki, Grindavík, ÍA, ÍBV, Keflavík, KR, Val og Þrótti R.  Félögin verða að uppfylla kröfur sem settar eru fram í leyfishandbók KSÍ og byggir á sambærilegri handbók sem UEFA hefur gefið út. Tveggja vikna töf varð á leyfisferlinu vegna erfiðleika nokkurra félaga við skil á gögnum og vegna óháðrar skoðunar á leyfisgögnum félaga, sem framkvæmd var af Deloitte. Félögin uppfylltu allar A- og B-forsendur, en sum félög sóttu þó um frest til aðlögunar vegna væntanlegra mannvirkjaframkvæmda við velli, t.d. aðstöðu fyrir áhorfendur.  Öll félögin í deildinni hafa fengið staðfestingu frá sínu bæjarfélagi um að úrbætur verði gerðar á aðstöðu áhorfenda á næstu árum, í flestum tilfellum fyrir keppnistímabilið 2007. Menntun þjálfara yngri flokka var ekki fullnægjandi hjá sumum félögum og fengu þau því viðvörun.  Menntun þjálfara yngri flokka er svokölluð C-forsenda sem kemur ekki í veg fyrir að leyfi sé veitt, sé hún ekki uppfyllt.  Einnig voru nokkur félög áminnt þar sem skiladagsetningar leyfisgagna voru ekki virtar. Með leyfisumsókn fyrir 2005 þurfti að fylgja ársreikningur með fullri áritun endurskoðanda, auk staðfestinga á því að engin vanskil séu hjá viðkomandi félagi við leikmenn og aðra starfsmenn eða vegna félagaskipta.  Staðfestingar á þessu bárust frá öllum félögunum.  Einnig þurftu félögin að útbúa svokölluð fjárhagsleg leyfisgögn, sem voru síðan skoðuð af Deloitte og skýrsla gefin um niðurstöður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×