Erlent

Enn slæmt veður á hamfarasvæðum

Það rignir enn eldi og brennisteini á hamfarasvæðunum í Kasmír og talið víst að fjöldi fórnarlamba muni hækka vegna vosbúðar og farsótta. Illa gengur að koma hjálp þangað sem hennar er þörf. Landleiðin er nánast ófær vegna flóða og flugleiðin vegna þrumuveðurs. Þeir sem lifðu jarðskjálftann af höfðust því við enn eina nóttina í heimatilbúnum skýlum úr drasli, í kulda og vosbúð. Veðrið fer nú skánandi en flutningur neyðarhjálpar gengur enn hægt, þar sem þrumuveður er í Islamabad og því geta þyrlur ekki flogið þaðan. Talið er víst að fjöldi fórnarlamba skjálftans muni hækka á næstunni og það án þess að tekið sé tillit til aðstæðna eftirlifenda, en óttast er að veðurfarið og menguð vatnsból geti leitt til þess að enn fleiri týni lífi á hamfarasvæðunum. Pakistönsk yfirvöld hyggjast setja upp tjaldborgir fyrir allt að hálfa milljón manna á næstunni þar sem matvælum verður dreift, bráðabirgðaskólum komið á fót og grundvallarþjónusta veitt. Herþyrla við hjálparstörf hrapaði í pakistanska hluta Kasmír í gærdag og fórust sex hermenn sem voru um borð. Þyrlan var að flytja hjálpargögn í Bagh-dalinn, en engin leið er fær þangað utan loftleiðin. Flak þyrlunnar fannst í gær en talsmenn pakistanska hersins segja óljóst á þessari stundu hvort að veður, vélarbilun eða eitthvað annað er ástæða þess að þyrlan hrapaði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×