Innlent

Hætt við ferðir til Sharm el-Sheik

Íslenskar ferðaskrifstofur hafa hætt við ferðir sem fara átti til egypska ferðamannabæjarins Sharm el-Sheik við Rauðahafið eftir að hryðjuverk urðu þar tæplega níutíu manns að bana í síðustu viku. Leiguflug sem Úrval útsýn áformaði til Sharm el-Sheik í byrjun nóvember hefur verið slegið af að sögn Steinunnar Tryggvadóttur, þjónustu- og starfsmannastjóra. "Við sjáum okkur ekki fært að bjóða upp á ferðina við þessar aðstæður," segir Steinunn. Talsvert margir höfðu þegar bókað sig í ferðina og fá þeir endurgreitt eða geta valið sér annan áfangastað. Tveir Íslendingar áttu að halda til Sharm el-Sheik í morgun en héldu í staðinn til Grikklands að sögn Tómasar Þórs Tómassonar, framkvæmdastjóra Langferða. Langferðir seldu vikulegar ferðir með dönsku ferðaskrifstofunni Apollo til Egyptalands en hætt hefur verið við allar ferðir til Sharm el-Sheik fram til 6. september. Ekki var í gær vitað hversu margir Íslendingar áttu bókað í ferðirnar sem hætt var við í ágústmánuði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×