Innlent

Menningarnótt um helgina

Búist er við sextíu til hundrað þúsund manns á Menningarnótt á laugardag. Ákveðin áherslubreyting hefur orðið hjá aðstandendum menningarnætur sem leggja megináherslu á góða dagskrá og öryggi borgaranna en síður á að fá sem mestan fjölda gesta. Talið er að 104 þúsund manns hafi verið á síðustu Menningarnótt en það er talið við efri mörk þess sem heppilegt er öryggisins vegna. Á þriðja hundrað viðburða verða á dagskránni. Meðal þess sem er nýtt verða Hlutabréfamarkaður kærleikans, brasilísk kjötkveðjuhátíð, mannskák á útitaflinu með aðstoð lúðrasveitar og þá verður forvitnum boðið að skoða húsakynni Frímúrara. Miðstöð týndra barna verður líkt og síðustu ár í risinu á gamla Hressó. Strætisvagnar Reykjavíkur ganga ekki til og frá Hlemmi líkt og áður heldur verða tvær stöðvar í miðbænum, í Vonarstræti fyrir þá sem eru á leið úr bænum og á Skothúsvegi fyrir þá sem eru að koma í bæinn. Ekið verður eftir stofnleiðum til tvö og almennu kerfi til fjögur. Frítt verður í þrjú bílastæðahús á laugardaginn, gegn Þjóðleikhúsinu, Kolaportinu og á Vitatorgi. Þá verða bílastæði hjá Hafnarhúsinu sérstaklega ætluð fötluðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×