Innlent

Fá ekki vegabréfalista

Úrskurðarnefnd Upplýsingamála hefur hafnað beiðni DV um að láta blaðinu í té upplýsingar um hverjir séu handhafar svokallaðra diplómatavegabréfa. Fulltrúar Utanríkisráðuneytisins höfðu áður vísað málinu til úrskurðarnefndar eftir að DV gerði kröfu um að fá upplýsingarnar fyrir um tveimur mánuðum.

Í DV í dag er ástæða kröfunnar um aðgang að vegabréfunum sögð sú að blaðið hafi haft af því spurnir að hugsanlega væru fleiri með slík vegabréf en eðlilegt gæti talist og þá jafnvel menn sem ekki þykir ástæða að njóti slíkra vegabréfa. Óskaði blaðið því eftir listanum á grundvelli Upplýsingalaga.

Utanríkisráðuneytið vísaði svo málinu til úrskurðarnefndar. Úrskurðarnefnd komst hins vegar að þeirri niðurstöðu þar sem umræddar upplýsingar væru á rafrænni skrá féllu þær ekki undir upplýsingalög.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur óskað eftir því á Alþingi að fá aðgang að sömu upplýsingum en í DV í dag gagnrýrnir hann ákvörðun úrskurðarnefndarinnar og sakar nefndina um að ákveða niðurstöðuna fyrirfram. Hann segir það sæta furðu að nefndin skuli gera það að aðalatriði hvernig upplýsingar um vegabréfin séu skráð.

Í sama streng tekur Einar Þór Sverrisson, lögmaður DV í málinu. Hann segir vegabréfin tengjast störfum viðkomandi fólks, þau séu ekki viðkvæmar persónuupplýsingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×