Erlent

Kosið í Írak í skugga ofbeldis

Flugskeyti var skotið á bandaríska sendiráðið í Bagdad í gær. Tveir Bandaríkjamenn létu lífið og fjórir særðust. Skömmu áður en flugskeytaárásin var gerð létust þrír íraskir lögreglumenn og fimm óbreyttir borgarar í sjálfsmorðsárás annars staðar í borginni. Gríðarleg ólga ríkir í landinu og er búist við því að óöldin haldi áfram í dag þegar þing- og sveitarstjórnarkosningar fara fram. Uppreisnarmenn súnní-múslima hafa hótað hertum árásum og segja að spjótunum verði beint að kjörstöðum. Öryggisgæsla er gríðarlega mikil í landinu vegna þessa. Algjör óvissa ríkir um það hversu margir munu taka þátt í kosningunum en óttast er að stór hópur fólks mæti ekki á kjörstaði af ótta við árásir ofbeldismanna. George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, áréttaði í gær að kosningarnar myndu ekki binda enda á hryðjuverkaárásir öfgamanna. Hann sagði hins vegar að þær mörkuðu upphafið að lýðræði í Írak og að friður væri í augsýn. Bush sagði að hryðjuverkamenn myndu gera allt sem í þeirra valdi stæði til að trufla kosningarnar í dag. Það væri kannski skiljanlegt því hryðjuverkamennirnir hefðu hagnast á þeirri ógnarstjórn sem ríkt hefði í landinu um áratugaskeið en með kosningunum væri breyttir tímar framundan. Alls eru um 5.300 kjörstaðir í landinu og opnuðu þeir klukkan fjögur í nótt. Kjörstaðir loka síðan klukkan tvö í dag. Búist er við því að það taki fjóra til fimm daga að telja atkvæðin. Alls er kosið um 275 þingsæti og verður fyrsta verk þingsins að skrifa nýja stjórnarskrá. Stefnt er því að nýr forsætisráðherra taki við stjórn landsins í byrjun mars og ríkisstjórn mynduð í lok þess mánaðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×