Sport

Gummi Ben með tvennu fyrir Val

Guðmundur Benediktsson skoraði tvö marka Valsmanna í 3-2 sigri á Fylki í deildabikarnum en leikurinn fór fram í Egilshöllinni á sunnudaginn. Valsmenn hafa þar með unnið tvo fyrstu leiki sína í deildabikarnum og halda áfram sigurgöngu sinni undir stjórn Willums Þórs Þórssonar. Valsmenn hafa unnið bæði Íslandsmót innanhúss og Reykjavíkurmótið á fyrstu mánuðum undir stjórn Willums Þórs en þetta voru fyrstu titlar meistaraflokks karla hjá félaginu síðan 1993. Mörkin skoraði Guðmundur Benediktsson á 4. og 64. mínútu leiksins en hann fór útaf í stöðunni 2-0 rétt eftir að hann skoraði seinna markið sitt. Þetta voru fyrstu mörk Guðmunda í opinberum mótum fyrir Hlíðarendafélagið. Fylkismenn skoruðu bæði mörk sín á síðustu sjö mínútum leiksins en í millitíðinni kom Bjarni Ólafur Eiríksson Valsmönnum í 3-1. Finnur Kolbeinsson og Hrafnkell Helgason skoruðu mörk Fylkis sem er án sigurs í fyrstu tveimur leikjunum. Blikar eru á toppnum í riðlinum ásamt Valsmönnum með tvo sigra í tveimur leikjum en Blikar hafa unnið tvo fyrstu leiki sína 4-1, á Þór og Grindavík.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×