Sport

Víkingar í viðræðum við Stoke

Víkingar leita nú logandi ljósi að liðsstyrk fyrir átökin í 1. deild karla í sumar og segir Sigurður Jónsson, þjálfari liðsins, að verið sé að skoða ýmis mál í þeim efnum. "Það er alveg ljóst að ég þarf að bæta við mig varnarmönnum. Það eru þrettán leikmenn sem voru í liðinu í fyrra sem eru ekki með í ár og varnarlínan sem við stilltum upp í fyrra er svo til horfin," segir Sigurður. Aðspurður segir Sigurður að það sé rétt að liðið hafi rætt við Stoke City í Englandi um áframhaldandi samstarf og gæti vel farið svo að þeir Jermaine Palmer og Richard Keogh, sem stóðu sig mjög vel með Víkingi í úrvalsdeildinni í fyrra, snúi aftur í sumar. Þá gæti vel farið svo að fleiri ungir leikmenn Stoke verði með í för. Sigurður kveðst einnig vera með 2-3 íslenska leikmenn í sigtinu en hann vill ekki gefa upp nöfn þeirra. Þá hefur Víkingur sett sig í samband við miðjumanninn Kristinn Hafliðason um að hann spili með liðinu næsta sumar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×