Innlent

Í hvað fara peningarnir?

Hver einasti Íslendingur á aldrinum 16-70 ára sem er með meira en um átta hundruð þúsund krónur í árstekjur þarf að greiða 5.378 krónur í framkvæmdasjóð aldraðra um mánaðamótin. Reynslan af svona eyrnamerktum sköttum er misjöfn, svo spurt er: í hvað fara þessir peningar? Þessi tala, 5.738 krónur, er á næstum öllum álagningarseðlum landsmanna. Skatturinn skilar árlega um átta hundruð milljónum króna í framkvæmdasjóðinn, að sögn Jóns Helgasonar frá Seglbúðum, formanns samstarfsnefndar um málefni aldraðra sem umsjón hefur með sjóðnum. Samkvæmt lögum eiga peningarnir að fara í byggingu þjónustumiðstöðva, dagvista og stofnana fyrir aldraða, breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu fyrir aldraða, viðhalds húsnæðis, reksturs stofnanaþjónustu fyrir aldraða í sérstökum tilvikum og annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir það hafa verið árlegan slag í hvað fjármunirnir eigi að fara því andi laganna sé ótvírætt sá að þeir eigi að fara í uppbyggingu hjúkrunarheimila og stofnana fyrir aldraða. Því sé þó oftast breytt með bandormi á Alþingi og stór hluti tekinn í rekstur þeirra stofnana sem fyrir eru. Nokkur hundruð manns eru á biðlista í Reykjavík eftir því að komast á hjúkrunarheimili svo það er greinilega full þörf fyrir fleiri slík. Spurningin er líklega bara hvort nauðsynlegt sé að hafa til þess sérstakan skatt sem ekki fer nema að hluta til í það sem honum er ætlað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×