Innlent

Írsk starfsmannaleiga á Íslandi

Írsk starfsmannaleiga hefur opnað útibú hér á landi og hefst starfsemin innan skamms. Forsvarsmaður leigunnar er bjartsýnn á íslenska markaðinn. Auglýst var eftir starfsmanni á starfsmannaleiguna í Morgunblaðinu fyrir stuttu og hefur einstaklingur verið ráðinn í starfið. Næstu daga mun leigan taka formlega til starfa og segir Paul Hanley, yfirmaður leigunnar, að áhugi íslenskra fyrirtækja sé mikill. Aðspurður segir hann að vinnuaflið sem fyrirtækið muni útvega íslenskum fyrirtækjum komi að stærstum hluta frá Bretlandi, eða um 90 prósent. Erlendar starfsmannaleigur hafa verið töluvert í fréttum upp á síðkastið. Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að stofnunin muni ekki fylgjast sérstaklega með fyrirtækinu. Því sé frjálst að setja upp starfsemi því engar reglur gildi um það, fyrir utan almennar reglur um að virða skuli laun, starfsmannaréttindi o.fl. varðandi íslenskan vinnumarkað. Gissur segir að starfsmannaleigur þekkist vel í flugiðnaðinum á Íslandi og að íslenski vinnumarkaðurinn sé nokkuð sveigjanlegur fyrir atvinnurekendur. Hann segir það álitamál eftir hverju atvinnurekendur séu að slægjast með því að ráða starfsmenn í gegnum slíkar leigur. Umræða hafi verið um það hvort menn séu með þessu jafnvel að reyna að ná sér í vinnuafl á launum sem séu undir umsömdum kjörum á íslenskum vinnumarkaði, en hann vonar að svo sé ekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×