Innlent

Skítlega eðlið ekki vítt

Salome Þorkelsdóttir vítti aldrei menn í forsetatíð sinni en beitti þess í stað mildari aðferðum til að hafa hemil á orðljótum þingmönnum. "Ég benti mönnum heldur á að gæta orða sinna," segir Salome en viðurkennir að í eitt skipti hefði mátt beita vítum. "Það kom upp eitt alvarlegt atvik sem orkaði tvímælis um hvort ég hefði ekki átt að nota þetta sterka orð; vítur." Tilvikið sem Salome vitnar til er brigsl Ólafs Ragnars Grímssonar um "skítlegt eðli" Davíðs Oddssonar í febrúar 1992. Salome lét duga að biðja Ólaf að gæta orða sinna. "Ég var gagnrýnd fyrir að víta hann ekki og það var í sjálfu sér ekki óeðlilegt. En þetta er mjög vandmeðfarið ákvæði." Salome vill ekki leggja mat á hvort rétt hafi verið af Halldóri Blöndal að veita Lúðvíki Bergvinssyni vítur á miðvikudag en segir Halldór hafa verið í fullum rétti til þess. "Ég tók nú líka eftir því að í hita leiksins ávarpaði þingmaðurinn forsetann í annarri persónu en veit ekki hvort forseti heyrði það. Þingmaðurinn sagði "þú", en það á hann alls ekki að gera." Salome er annt um virðingu og orðspor Alþingis og vill að þingmenn leggi sig fram um að halda reglur þess í heiðri. "Þetta er æðsta og virðulegasta stofnun þjóðarinnar þannig að fólk þarf að haga sér vel."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×