Erlent

Utanríkisráðherra ráðinn af dögum

Friðarhorfur á Srí Lanka versnuðu enn þegar Lakshman Kadirgamar utanríkisráðherra var ráðinn af dögum í gær. Kadirgamar var skotinn til bana af leyniskyttum skömmu eftir að hann steig upp úr sundlaug við heimili sitt. Tvö skot hæfðu hann, annað í höfuðið og hitt í hjartað. Kadirgamar sem var náinn samstarfsmaður Chandrika Kumaratunga var mjög gagnrýninn á Tamíl-Tígra og barðist fyrir því að samtökin yrðu bönnuð á heimsvísu sem hryðjuverkasamtök, sjálfur var Kadirgamar Tamíli. Talsmenn hersins telja Tamíl-Tígra hafa staðið að morðinu. Hagrup Haukland, sem hefur unnið að friðarmálum á Srí Lanka fyrir norsk stjórnvöld, sagði morðið mikið áfall fyrir friðarferlið í landinu óháð því hver stæði á bak við það. Hann sagði of snemmt að spá því að borgarastríð brytist út á ný. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, fordæmdi morðið harðlega. Friðarhlé komst á árið 2002 fyrir milligöngu Norðmanna. Síðasta árið hefur ofbeldisverkum fjölgað eftir klofning í röðum Tamíl-Tígra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×