Innlent

Vilja efla lýðheilsu

Á aðalfundi sínum sen fram fór dagana 30. september til 2. október samþykkti Læknafélag Íslands ályktanir sem auka eiga lífslíkur og heilbrigði þjóðarinnar og benti félagið á að lykilatriði væri hollara mataræði og aukin hreyfing. Í ályktun þeirra segir m.a. að barátta við langvinna sjúkdóma einkenni heilbrigðisþjónustu velmegunarþjóða þar sem fáir áhættuþættir hafa mest áhrif á sjúkdóma og dánartíðni. Mikilvægustu áhættuþættirnir eru hækkaður blóðþrýstingur, hækkað kólesteról í blóði, ófullnægjandi neysla ávaxta og grænmetis, ofeldi eða offita, hreyfingarleysi og reykingar. Sumir þessara áhættuþátta eru innbyrðis tengdir og nátengdir mataræði og hreyfingu. Í ályktun Læknafélagsins kemur einnig fram að hreyfingarleysi, offita og slæmt mataræði tengjast oft en eru sjálfstæðir áhættuþættir sjúkdóma. Með aukinni hreyfingu má bæta horfur um gott heilsufar, þrátt fyrir offitu. Einnig kemur fram að hreyfing virðist hafa grundvallarþýðingu fyrir líkamlega og andlega heilbrigði einstaklinganna. Aðalfundur Læknafélags Íslands árið 2004 vakti athygli Alþingis og ríkisstjórnar á þessum staðreyndum og hvatti til áætlunar á vegum stjórnvalda til að efla lýðheilsu með víðtækri heilsurækt með hreyfingu og bættu mataræði. Bent var á leiðir í þessu skyni og hvernig verkefnið spannaði verksvið margra ráðuneyta.  Læknafélagið fagnar einnig þingsályktun frá Alþingi síðastliðið vor um sama efni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×