Innlent

Brugðust rangt við neyðarkalli

Starfsmenn færeysku Sjóbjörgunarmiðstöðvarinnar brugðust rangt sjálfvirku neyðarkalli Jökulfellsins sem sökk norðaustur af Færeyjum sjöunda febrúar síðast liðinn að því er fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar sjóslysa á eynni Mön.

Í skýrslunni er gagnrýnt hve hæg viðbrögð Sjóbjörgunarmiðstöðvarinnar voru þegar henni barst sjálfvirkt neyðarkall frá skipinu. Segir í skýrslunni að Sjóbjörgunarmiðstöðin hefði átt að senda þyrlu á staðinn um leið og ljóst var að Jökulfellið væri á svæðinu og ekki náðist samband við það en miðstöðin sendi aðeins varðskip á vettvang. Kemst rannsóknarnefndin að því að með því að senda þyrlu hefði hún getað verið komin klukkutíma fyrr á staðinn en varðskipið sem hefði getað skipt sköpum fyrir þá menn sem í sjónum voru. Í skýrlunni er þó ekki fullyrt að þyrla hefði getað bjargað mannslífun en ellefu manna áhöfn var á Jökulfellinu og komust aðeins fimm menn lífs af. Skipið sem var leiguskip Samskipa var að koma frá Lettlandi með átján hundruð tonn af steypustyrktarstáli og kemst rannsóknarnefndin að því að farmurinn hafi ekki verið nógu vel skorðaður og færst til í lestum skipsins þegar það fékk á sig brot með þeim afleiðingum að skipið lagðist á hliðina og sökk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×