Innlent

Biðlistar standa í stað

Biðlistar á Landspítala - Háskólasjúkrahúsi standa nánast í stað miðað við sama tíma í fyrra. Þó hafa þeir lengst í sumum sérgreinum. Yfirstjórn spítalans er ánægð með stöðuna. Flestir eru á biðlista á skurðdeild eða rúmlega 2300 manns. Þar af eru rúmlega 900 manns á biðlista eftir augnsteinaaðgerð en sá biðlisti hefur lengst frá fyrra ári. Þá hefur biðlisti eftir hjartaþræðingu lengst en nú bíða 248 manns eftir slíkri aðgerð og þar af hafa 130 manns beðið lengur en þrjá mánuði. Jóhannes M. Gunnarsson, framkvæmdastjóri lækninga, er almennt ánægður með stöðuna, enda séu listarnir ýmist stuttir eða mjög stuttir. Biðlistinn eftir augnsteinaaðgerða hafi lengi verið of langur, þó svo að biðtíminn sé að styttast um nokkra mánuði á milli ára, en nú er ætlunin að vinna listann niður á næstu 6-12 mánuðum. Jóhann segir að biðlistar eftir skurðaðgerðum séu almennt í góðum málum. Eina undantekningin sé að biðtími hafi lengst eftir liðskiptiaðgerðum á hné. Aðspurður segir Jóhannes að ástandið hér á landi sé mjög gott í samanburði við Norðurlöndin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×