Innlent

Ný höfn á Mjóeyri við Reyðarfjörð

Ný höfn, sem er að verða til á Mjóeyri við Reyðarfjörð, verður á næstu árum ein stærsta útflutningshöfn landsins. Fyrstu skipin leggjast þar að bryggju í næsta mánuði. Verktakafyrirtækið Arnarfell hóf hafnargerðina síðastliðið haust. Það er vitanlega ákvörðun um byggingu álvers sem leiddi til þess að samhliða þurfti að gera höfn við álverslóðina. Sveitarfélagið Fjarðabyggð mun eiga og reka höfnina. Guðmundur Bjarnason, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir þetta langstærsta verkefni sem sveitarfélagið hafi ráðist í. Höfnin kosti um milljarð króna og hlutur sveitarfélagsins sé á milli 500 og 600 milljónir. Viðlegukanturinn verður 380 metra langur og sá lengsti utan suðvesturhorns landsins. Aðeins Reykjavík, Hafnarfjörður og Grundartangi verða með lengri bryggju. Nýja höfnin á Mjóeyri mun hins vegar státa af meira dýpi en hinar, yfir 14 metra dýpi, og mun því geta tekið við stærstu skipum. Upphaflega bjuggust menn við því að hún yrði sérhæfð stóriðjuhöfn eins og Straumsvík og Grundartangi. Nú hafa hins vegar bæði Eimskip og Samskip sótt formlega um lóð á hafnarsvæðinu og fyrirspurnir og óskir annarra aðila um athafnarými benda jafnframt til að þarna geti byggst upp ein helsta inn- og útflutningshöfn landsins. Þaðan er ein stysta siglingaleiðin til Evrópu og Austfirðingar sjá fyrir sér að hún muni sem vöruflutningahöfn ekki aðeins þjóna Norður- og Austurlandi heldur öllu landinu. Eins og annað á Austurlandi þessa dagana hefur verkið unnist hratt. Guðmundur segir fyrsta hluta hafnarinn verða til 1. júlí og þá eigi hundrað metra viðlegukantur að vera tilbúinn fyrir skip.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×