Erlent

Skilaboð Sameinuðu á alþjóðlega alnæmisdeginum

Þjóðir heims mega ekki sofa á verðinum í baráttunni við alnæmi, þó að fjölmiðlar hafi fjallað meira um aðra sjúkdóma undanfarin misseri. Þetta eru skilaboð Sameinuðu þjóðanna á alþjóðlega alnæmisdeginum sem er í dag.

Tæplega fjörutíu milljónir manna um heim allan eru smitaðar af HIV-veirunni og hún breiðist hratt út í Asíu og Afríku. Á síðasta ári einu saman létust þrjár milljónir manna úr alnæmi í heiminum, langflestir í Afríku. Alls hafa tuttugu milljónir látist af völdum alnæmis síðan sjúkdómurinn greindist fyrst fyrir nærri tuttugu og fimm árum.

Í dag er alþjóða alnæmisdagurinn, og skilaboðin frá forvarnarstofnun Sameinuðu Þjóðanna í alnæmismálum eru skýr. Heimsbyggðinni stafar stórkostleg hætta af alheimsfaraldri alnæmis og því dugir ekkert minna en stórkostleg viðbrögð eigi að koma í veg fyrir að illa fari. Það hafi sýnt sig á undanförnum áratugum að fjármagn sem fari í forvarnir skili sér margfalt til baka.

Útbreiðsla HIV-veirunnar, sem veldur alnæmi, er hvergi meiri en í Suður-Afríku og næstmest í Indlandi. Rúmar fimm milljónir manna eru smitaðar af veirunni í Indlandi öllu og þar hefst í dag herferð á vegum stjórnvalda, með það að markmiði að snúa þróuninni við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×