Innlent

Var seld án skilmála um friðun

Heilsuverndarstöðin. Ekki er vitað hvað Mark-hús ætlast fyrir með Heilsuverndarstöðina.
Heilsuverndarstöðin. Ekki er vitað hvað Mark-hús ætlast fyrir með Heilsuverndarstöðina.

Nýr eigandi Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg, byggingafyrirtækið Mark-hús, vill ekki enn upplýsa hvað það hyggst fyrir með Heilsuverndarstöðina. Eigandi Mark-húss, Markús Már Árnason, segir að upplýsingar um þeirra áætlanir séu í fyrsta lagi væntanlegar eftir áramót.

Forsvarsmenn Mark-húss hafa hins vegar sagt að hugsanleg friðun Heilsuverndarstöðvarinnar ætti ekki að hafa áhrif á þeirra fyrirætlanir. Reykjavíkurborg og ríkissjóður Íslands hafa mælst til að Heilsu­­verndarstöðin verði friðuð og hafa lagt á kvaðir þar til lögformleg friðun, samkvæmt húsfriðunarlögum, hefur verið staðfest.

Óli Hertervig, deildarstjóri eignarumsýsludeildar skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segir að ekki hafi verið settir neinir skilmálar í kaupsamninginn við Mark-hús um að skipulagsráð fengi að vita hvaða framkvæmdir væru fyrirhugaðar á Heilsuverndarstöðinni.

Skipulagsfulltrúi hjá skipulagsráði sem Fréttablaðið ræddi við sagði að það hefði verið sniðugt að setja inn þessa skilmála í kaupsamninginn. "Við vorum ekki skyldugir til að gera það og gengum ekkert eftir því," segir Óli. "Þetta var bara eins og venjulegt kauptilboð í íbúð eða hús."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×