Innlent

Rannsókn við Kárahnjúka enn ólokið

Lögreglurannsókn á banaslysi í mars í fyrra við Kárahnjúka er enn ólokið. Nokkrir hafa verið yfirheyrðir með réttarstöðu grunaðra. Lögregluyfirvöld fyrir austan sendu málið til ríkissaksóknara í október en fengu það endursent þar sem ýmsum spurningum þótti ósvarað. Slysið er rannsakað sem sakamál þar sem grunur leikur á að öryggisbúnaður hafi ekki verið viðunandi. Impregilo og undirverktaki þess, Arnarfell, höfðu fengið skriflegar athugasemdir um þá hættu sem stafaði af grjóthruni úr gljúfrinu undir Fremri-Kárahnjúk áður en slysið varð aðfaranótt mánudagsins 15. mars. Þá varð tuttugu og fimm ára starfsmaður verktaka á svæðinu fyrir grjóti úr vegg Hafrahvammagljúfurs og lést. Rannsóknin hefur dregist mjög mikið en átti þó að vera lokið í byrjun október og var málið þá sent ríkissaksóknara sem ákveður hvort ákært verður í málinu. Þar á bæ voru menn hins vegar ekki ánægðir með rannsóknina og þótti sem ýmsum spurningum væri enn ósvarað. Málið var því sent Sýslumanninum á Seyðisfirði aftur til meðferðar um miðjan desember. Vinnueftirlitið rannsakaði slysið jafnhliða lögreglu með tilliti til vinnuverndar og er að ljúka við sína skýrslu. Kristinn Tómasson, yfirlæknir hjá Vinnueftirlitinu, vonast til að skýrslan liggi fyrir á næstu dögum. Helgi Jensson, sýslufulltrúi á Egilsstöðum, sem hefur umsjón með lögreglurannsóknni segir að verið sé að afla þeirra gagna sem beðið hafi verið um. Hluti af því feli í sér samskipti við útlendinga sem séu farnir til síns heima og það tefji fyrir. Nokkrir hafa verið yfirheyrðir með réttarstöðu grunaðra. Rannsóknin beinist að því hvort reglur um öryggi starfsmanna hafi verið brotnar og það hafi valdið slysinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×