Innlent

Eiturefni utan við hús í Síðumúla

Kútar og gámar með hættulegum og eldfimum efnum standa fyrir utan fyrirtæki við Síðumúla 35 þar sem hver sem er getur nálgast þau. Nágrannar hafa ítrekað kvartað og bæði Eldvarnareftirlitið og heilbrigðisyfirvöld hafa haft afskipti af eigendunum. Eldvarnareftirlitið hafði afskipti af fyrirtækinu fyrir einu og hálfu ári eftir að nágrannar höfðu kvartað. Svæðið var skoðað og gerð krafa um að eigendur skiluðu brunavarnaúttekt og gerðu úrbætur. Samkvæmt eldvarnarkröfum verður að geyma eiturefni í læstu og loftræstu rými. Eigendur brugðust við með því að flytja efnin út fyrir húsið og þar með lauk afskiptum Eldvarnareftirlitisins. En þótt loftræstingin sé vissulega góð fyrir framan Síðumúla 35 fer minna fyrir því að reynt sé að hindra að hver sem er geti nálgast þau hættulegu efni sem þarna eru geymd. Þau standa fyrir utan fyrirtækið óvarin að öðru leyti en því að sumum plastílátunum hefur verið staflað á bretti og plasti eða snæri brugðið yfir. Merkingarnar leyna sér ekki, þarna er um að ræða eldfim, ætandi, eitruð og jafnvel lífshættuleg efni. Heilbrigðisyfirvöld í borginni hafa einnig látið til sín taka í málinu, fyrst sumarið 2003 þegar kvartað var yfir eiturefnum á lóðinni. Í febrúar í fyrra bárust aftur kvartanir frá nágrönnum vegna hættulegra efna í portinu. Gerð var krafa um að svæðið yrði girt af í lok júní í fyrra. Í dag er búið er að setja upp girðingu en hún nær ekki alla leið þannig að öllum er frjálst að valsa inn og út. Í dag var krafan ítrekuð. Heilbrigðiseftirlitið gerði þá athugasemdir við mikið af eiturefnum fyrir framan húsið en eigendur báru því við ammoníakskútar sem eru hættulegasta efnið á lóðinni væru tómir. Gerð var athugasemd við önnur hættuleg efni sem voru á glámbekk en þau eiga samkvæmt fyrri kröfum að vera geymd í læstum gámi eða innan girðingar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×