Innlent

Geti sett á sölubann á veiðibráð

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra hefur kynnt í ríkisstjórn frumvarp til laga um breytingu á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu er sagt að í frumvarpinu sé lagt til að umhverfisráðherra verði heimilt að takmarka veiðar við ákveðna daga og ákveðinn tíma sólarhringsins og að ráðherra geti við tilteknar aðstæður bannað sölu á veiðibráð. Frumvarpið er liður í þeim áformum að rjúpnaveiðar verði heimilar á ný haustið 2005. Tildrög málsins eru þau að í júlímánuði 2003 ákvað Siv Firðleifsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, að friða rjúpu frá og með árinu 2003 til og með 2005 vegna bágs ástands stofnsins. Við talningu á rjúpu vorið 2004 kom síðan fram að stofninn hafði tvöfaldast á milli áranna 2003 og 2004. Í framhaldi af niðurstöðum talningarinnar ákvað umhverfisráðherra Sigríður Anna Þórðardóttir að fela svokallaðri rjúpnanefnd að gera tilllögu að frumvarpi til laga um breytingu á áðurnefndum lögum með það að markmiði að tryggja að rjúpnaveiðar yrðu sjálfbærar þegar þær hæfust á ný til að ekki þyfrti að grípa til veiðibanns aftur. Í nefninni eiga sæti fulltrúar umhverfisráðuneytisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Fuglaverndarfélags Íslands, Skotveiðifélags Íslands og Bændasamtaka Íslands. Um tillöguna ríkti full eining meðal nefndarmanna, segir í tilkynningunni.  Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að umhverfisráðherra verði heimilt, þegar friðun einstakra fuglategunda er aflétt, að takamarka veiðar við ákveðna daga og ákveðinn tíma sólarhringsins. Enn fremur að umhverfisráðherra verði heimilt að banna sölu á afurðum þeirra fugla sem undir lögin falla þ.e.a.s. á veiðibráð og afurðum þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×