Innlent

Einkaaðilar í flugeldasölu reyna að líkja eftir sölustöðum Landsbjargar

Fjöldi einkaaðila sem selja flugelda eykst árlega. Sumir fara þá leið að líkja eftir skiltum og auglýsingaaðferðum Landsbjargar og Hjálparsveita Skáta.

Magnús Magnússon í flugeldanefnd Landsbjargar segir að nú séu tíu flugeldasölstaðir starfræktir í Höfðahverfi í Reykjavík og að þeim tíu séu sjö einkaaðilar að selja flugelda. Á Malarhöfða er einn sölustaður Hjálparsveita skáta í Reykjavík. Í næsta húsi eru síðan einkaaðilar í flugeldasölu. Það sem er sérstakt við sölustað er að auglýsingaskiltið er nauðalíkt skilti Hjálparsveitarinnar í næsta húsi og einnig nota þeir blikkandi ljós sem Hjálparsveitin hefur notað sem auðkennismerki sölustaða sinna. Jón Gunnarsson, framkvæmdastjóri Landsbjargar segir samkeppnisaðilum úr einkageiranum fara sífjölgandi og að þeir beiti ýmsum aðferðum en þetta sé óvenjugróft þar sem reynt er að líkja eftir sölustöðum Landsbjargar á allan hátt.

Skilti einkaaðilans er svo keimlíkt því sem Landsbjörg notar að varla er hægt að sjá muninn. Þegar fréttamaður kom á sölustaðinn voru sölumenn í úlpum líkum þeim sem sjúkraflutningamenn nota en skömmu síðar þegar fréttamaður ætlaði að mynda sölustaðinn voru þeir farnir úr úlpunum sem eru áþekkar þeim sem sjúkraflutningamenn nota. Sölumennirnir harðneituðu að koma í viðtal en sögðust vera að styrkja KR þar sem þeir keyptu flugelda af þeim. Spurðir að því af hverju slík auglýsing væri ekki uppi við, sögðu þeir að ekki væri um beinan styrk til KR að ræða heldur keyptu þeir bara af þeim. Svo gróðinn ef einhver er hlýtur því að renna í þeirra eigin vasa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×