Innlent

3000 ferðamenn á Íslandi um þessi áramót

MYND/Gunnar V. Andrésson

Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum ferðaþjónustunnar dvelja um 3000 ferðamenn á Íslandi um þessi áramót.Erna Hauksdóttir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir ferðamenn vera 15 prósentum fleiri um þessi áramót en þau síðustu.

Flestir ferðamenn sem dvelja hér um áramót koma til að fylgjast með hinni einu sönnu flugeldasýningu um miðnætti þegar landinn kveður gamla árið, en hún dregur fleiri og fleiri ferðamenn hingað til lands á hverju ári. Nokkrar ferðaskrifstofur eru með skipulagðar ferðir hingað til lands um áramótin. Þannig er Ferðaskrifstofa Guðmundar Jónassonar með skipulagðar ferðir um áramótin. Á hennar vegum verða um 300 manns í Reykjavík og byrja gleðina með mat í Perlunni og síðan er farið í rútuferð um borgina og helstu brennur skoðaðar. Kvöldið endar svo í Perlunni þar sem skálað verður fyrir nýju ári.

Stærstu áramótabrennurnar í höfuðborginni verða við Ægisíðu, á Geirsnefi, við Rauðavatn og við Gufunes hjá gömlu öskuhaugunum. Kveikt verður í bálköstunum klukkan hálf níu. Veðurhorfur fyrir gamlárskvöld eru almennt góðar. Hægviðri um allt land víða úrkomulítið en hætt við stöku éljum norðan til og lítilsháttar slydduéljum austan til. Að öðru leiti ættu áramótin að fara fram í blíðu og þurrviðri

Fjölmargir skemmtistaðir í Reykjavík opna á miðnætti á gamlársdag og má búast við miklum fjölda fólks í miðbæ Reykjavíkur sem munu skemmta sér fram á rauða nótt og kveðja gamla árið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×