Innlent

Pössum börnin betur

Velferðarsjóður barna hefur í samvinnu við Lýðheilsustöð og Tryggingamiðstöðina blásið til átaksins Pössum börnin betur í því skyni að draga úr slysum ungra barna á heimilum. "Reyndin er því miður sú að þó að lífslíkur barna séu hvergi meiri í heiminum en hér erum við eftirbátar nágrannaþjóða okkar hvað slys barna á heimilum varðar," segir Ingibjörg Pálmadóttir, formaður Velferðarsjóðs barna. Árið 2003 leituðu um 1.400 börn til læknis vegna slysa, sem flest áttu sér stað í heimahúsum. Gerðar hafa verið tíu fræðslu- og upplýsingamyndir í því skyni að draga úr slysum barna. Myndunum er ætlað að minna forráðamenn barna á nokkur atriði sem oftast valda slysum, til dæmis eitranir, bruna, köfnun og drukknun. Ýmsir þjóðkunnir einstaklingar koma fram í myndunum en í aðalhlutverki verður brúðan Samúel. Sýningum á myndunum verður meðal annars fylgt eftir með fræðslu í fjölmiðlum og blaðagreinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×