Innlent

Risaborar að Kárahnjúkum allir farnir að snúast

Risaborarnir þrír í Kárahnjúkavirkjun eru nú allir farnir snúast og boruðu þeir samtals sjötíu metra í gær. Haldi þeir þessum afköstum mun takast að klára þá fimmtán kílómetra sem eftir eru á tilsettum tíma fyrir næsta haust.

Stærsti óvissuþátturinn í Kárahnjúkavirkjun nú er framganga jarðgangavinnunnar en erfið jarðlög hafa valdið svo miklum töfum að öll tímaáætlun stóriðjuframkvæmdanna á Austurlandi hefur verið í uppnámi. Borverkið stendur og fellur með þremur risaborum sem heilbora nærri 40 kílómetra af göngum sem flytja eiga vatnsrennsli tveggja jökulfljóta að stöðvarhúsinu.

Bor númer þrjú var í fimm mánuði verklaus meðan verið var að færa hann til og snúa honum en þeim tilfæringum lauk í síðustu viku og var hann gangsettur að nýju fimm dögum fyrir jól. Eru borarnir þrír nú allir farnir að vinna samtímis. Bor eitt hefur gengið langbest en hann hefur slegið hvert hraðametið á fætur öðru. Í gær boraði hann 30 metra og er nú kominn yfir tíu kílómetra inn í fjallið.

Bor tvö hefur verið erfiðum jarðlögum og gengið hægt, í gær komst hann fimmtán metra. Bor þrjú boraði fyrst átta kílómetra í átt að Hálslóni en nú er búið að snúa honum við og borar hann nú í hina áttina til móts við bor númer tvö. Í gær komst hann 25 metra. Ef borunum tekst að halda þessum hraða er sýnt að þeir muni ná að ljúka verkinu á tilsettum tíma, að því gefnu að þeir mætist á réttum stað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×